VG í nýju sveitarfélagi

Íbúar í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi gera upp hug sinn um hvað kjósa skal í sveitarstjórnarkosningum 19. september.

VG býður fram lista undir merkjum hreyfingarinnar og af því erum við mjög stolt.

Mikilvægt er að sameiningin takist vel og að íbúarnir skynji sveitarfélagið strax sem eina heild. Við viljum samt að hvert byggðarlag fyrir sig, haldi áfram að njóta sérstöðu og eflast á grunni bættrar þjónustu í nýju sveitarfélagi.

Þótt mikil vinna verði að samþætta innviði í nýju sveitarfélagi viljum við í framboði VG ekki sjá stöðnun þótt kjörtímabilið sé stutt, heldur hefjast handa strax við að nýta tækifærin til vaxtar fyrir allt sveitarfélagið.

VG fer fram með stefnu um heilsueflandi samfélag, félagshyggju, umhverfis- náttúru- og menningu, skapandi greinar, mannréttindi og með ríka áherslu á fjölbreytni í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Þá verður sérstök áhersla lögð á stórbættar samgöngur milli byggðarkjarna með Fjarðarheiðargöng og Axarveg í forgangi. Öruggar og góðar samgöngur eru forsenda þess að vel til takist með sameiningu sveitarfélaganna.

Framboðslisti VG er skipaður einstaklingum vítt og breitt úr sveitarfélaginu sem hafa fjölbreyttan bakgrunn og sérfræðiþekkingu sem nýtast mun framboðinu vel í þeim stóru verkefnum sem framundan eru. Listinn hefur einnig á að skipa góðri breidd er varðar aldursdreifingu og reynslu.

Með stuðningi við lista VG í komandi kosningum veljið þið, kjósendur góðir, stefnu sem felur í sér að efla allt sveitarfélagið með sérstöðu og styrk hvers svæðis.

                                                                           Kosningastjórn Framboðs VG