Við þeirri spurningu eru náttúrulega mörg svör en vonandi helst þau að hér líður okkur vel. En hvað er það sem lætur okkur líða vel þar sem við búum?
Er það allra helst öflugt atvinnulíf með mörgum stórfyrirtækjum? Eða, er það örugg heilsugæsla, gjöfult menningarlíf, magnað listalíf, barnvænt umhverfi, sjálfbær fyrirtækjarekstur, falleg og ósnortin náttúra? Eru það tækifærin sem bjóðast til að blómstra sem einstaklingur og að við séum metin að verðleikum? Að fjölskylda og vinir séu á svæðinu eða að okkur finnist við tilheyra samfélaginu sem við búum í? Það er það sem ég og við í VG erum spenntust fyrir.
Við hér í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi á Austurlandi búum vel að mörgum þessum þáttum þó betur megi ef duga skal. Við eigum mikið af fallegri og ósnortinni náttúru enda eru 11% landsins eða rúmlega 11 þúsund ferkílómetrar lands innan sveitarfélagsmarkanna. Til samanburðar er Sjáland í Danmörku 7 þúsund ferkílómetrar. Við þurfum að vernda og viðhalda þessari náttúru og þar er ábyrgð okkar mikil, við eigum að skila náttúrunni í betra ástandi en við tókum við henni.
Það er samt ekki nóg að okkur íbúunum líði vel hér. Við verðum að hafa sveitarfélagið þannig að fólk vilji og geti flutt til okkar. Unga fólkið okkar sem hefur farið annað til að afla sér menntunar og reynslu ætti að vilja og hafa möguleika á að flytja heim og fá húsnæði og störf við hæfi.
Á þessum nótum leggjum við í VG áherslu á þessi atriði.
• Að strax eftir kosningar verði farið af stað með aðalskipulagsvinnu fyrir hið nýja sveitarfélag og að við skilgreinum þar hvað sé okkur mikilvægt. Hvað við viljum vernda og hverju hugsanlega breyta.
• Að við auðveldum íbúum að skapa sín eigin tækifæri hvað atvinnu snertir og styðjum við sprotafyrirtæki og frumkvöðla.
• Að við auðveldum fólki að flytja til okkar, bæði eftir nám og nýja íbúa annarstaðar frá.
• Að við spyrjum okkur alltaf þegar ákvarðanir eru teknar, eykur þessi ákvörðun vellíðan og hamingju íbúa? Þá verður ákvörðunartakan meira í takt við þarfir íbúa.
Hlutverk sveitarstjórna ætti að vera að stuðla að hamingju og vellíðan íbúa. Ef okkur líður vel sjálfum vilja aðrir flytja til okkar og þá verður uppbygging bæði í atvinnulífi, menningar-og mannlífi.
Helgi Hlynur Ásgrímsson, sjómaður og hreppsnefndarmaður, skipar annað sætið á lista VG í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Greinin birtist fyrst í Austurglugganum/Austurfrétt