Mannréttindi

Jafnrétti

Markmið sveitarfélagsins á alltaf að vera að stuðla að jafnrétti með ákvörðunum sínum og samþætta jafnréttismarkmið í allri stefnumótun og ákvarðanatöku. 

 • Gera þarf jafnréttisáætlun með mælanlegum markmiðum á fyrsta starfsári nýrrar sveitarstjórnar.
 • Auka þarf kynjafræðikennslu og jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og innan stjórnsýslunnar. 
 • Sveitarfélagið og stofnanir þess þurfa að hafa uppfærðar viðbragðsáætlanir og verkferla vegna kynbundinnar áreitni, kynbundins ofbeldis, kynferðislegrar áreitni og kynferðislegs ofbeldis. 
 • Styðja þarf við úrræði fyrir þolendur ofbeldis. Mikilvægt er að tryggja farsælan farveg fyrir þolendur kynbundins ofbeldis, til að mynda með samráði félagsþjónustu, löggæslu, heilbrigðisstarfsfólks og félagasamtaka á borð við Stígamót. Skýrir verkferlar eru nauðsynlegir. 

Ungt fólk að borðinu í nýju sveitarfélagi

 • Mikilvægt er að raddir allra hópa samfélagsins eigi sæti við borðið þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. 
 • Hreyfingin vill að ungu fólki, kynslóðunum sem erfa munu samfélagið, sé ávallt veitt aðkoma að umræðum og ákvarðanatöku um stærri mál í sveitarfélaginu sem geta haft veruleg áhrif á komandi kynslóðir, má þar nefna umhverfismál.  
 • VG treystir ungu fólki.   

Málefni aldraðra og öryrkja

 • Í sveitarfélaginu þarf að huga betur að aðgengismálum. 
 • Standa verður vörð um þau sem háð eru velferðarkerfinu um afkomu sína og auðvelda aðgengi þeirra hópa sem lakast standa fjárhagslega að þjónustu, til dæmis með sérstökum gjaldskrám.
 • Öll þjónusta lífeyrisþega skal mótuð í samtali við og út frá þörfum og væntingum notenda hverju sinni. 
 • Alltaf ætti að miða að því að auðvelda þessum hópi aðgengi að vinnumarkaði og þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum.

Málefni hinsegin fólks

Það er mikilvægt að öll í samfélaginu finni frelsi til að skilgreina sig út frá sinni kynvitund, kynhneigð, kyneinkennum eða kyntjáningu. 

 • Tryggja þarf hinseginfræðslu á öllum skólastigum og innan stjórnsýslunnar.
 • Fjölga þarf kynhlutlausum almenningssalernum.

Málefni innflytjenda

Lykillinn að góðu fjölmenningarsamfélagi er gagnkvæm samlögun. Um leið og innflytjendum er gert kleift að aðlagast samfélaginu með því að læra siði og tungumál þarf samfélagið og stofnanir þess að aðlagast fjölbreytileikanum og mæta fólki þar sem það er statt. Mikilvægt er að efla þjónustu við innflytjendur og tryggja upplýsingagjöf um tungumálakennslu, réttindi, skyldur, atvinnu og húsnæði. 

 • Efni frá sveitarfélaginu, meðal annars á heimasíðu, þarf að vera aðgengilegt á fleiri tungumálum en íslensku. 
 • Leggja þarf áherslu á móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa íslensku sem annað mál.
 • Hlúa þarf að upprunamenningu og gera fólki kleift að stunda hana.
 • Stefna þarf að því að íslenskukennsla verði í boði, innflytjendum að kostnaðarlausu.
 • Íslenskunámskeið þurfa að vera regluleg og aðgengileg öllum

Móttaka flóttafólks

Sveitarfélagið lýsi sem fyrst vilja sínum til að taka á móti flóttafólki í samráði við stjórnvöld, hvort sem er hópum sem boðið er til landsins eða fólki sem kemur á eigin vegum og fær vernd. Í sveitarfélaginu eru allir innviðir til staðar og sjálfsagt að taka þátt í því mikilvæga verkefni að taka á móti fólki sem þarf á því að halda. 

Önnur stefnumál

Atvinna
Heilbrigðismál
Íþróttir og tómstundir
Menningarmál
Menntun
Náttúruvernd
Sameiningin
Samgöngur
Skipulagsmál
Umhverfis- og loftslagsmál