Menntamál eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni sveitarfélaga, líta þarf á menntun og skólastarf sem verðmætasköpun. Móta þarf heildstæða skólastefnu fyrir öll skólastig í samráði við hagsmunahópa á kjörtímabilinu.
- Standa þarf vörð um öfluga framhaldsmenntun í sveitarfélaginu, styðja og efla Menntaskólann á Egilsstöðum, standa vörð framtíð Hallormstaðarskóla og styðja við Lungaskólann.
- Til framtíðar þarf að hækka menntunarstig á svæðinu.
- Áfram þarf að vinna markvisst að stofnun háskólaseturs á Austurlandi. Styðja þarf við rannsóknir og kennslu á háskólastigi með það að markmiði að til verði háskólatengd störf á heilsársgrundvelli í sveitarfélaginu.
- Bregðast þarf skjótt við skorti á fagmenntun á leikskólastigi með því að endurskoða og auka námstuðning við starfandi leiðbeinendur.
- Nauðsynlegt er að tryggja áframhaldandi blómlegt starf allra leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu. Ekki kemur til greina að loka skólum eða sameina skóla til að ná skammtíma hagræðingarmarkmiðum.
- Efla þarf faglegt sjálfstæði hvers skólasamfélags fyrir sig.
- Efla þarf innra gæðamat hvers skóla og ytra gæðamat sveitarfélagsins t.d. með ráðningu leik- og/eða grunnskólafulltrúa á vegum sveitarfélagsins skólastjórnendum til stuðnings.
- Almennt þarf að stefna að lækkun leikskólagjalda og tryggja aðgengi að góðri leikskólamenntun óháð efnahag og búsetu.
- Vinna þarf að því að börn allstaðar í sveitarfélaginu fái leikskólapláss sem fyrst eftir að fæðingarorlofsrétti foreldra lýkur.
- Tryggja þarf öfluga náms- og starfsráðgjöf í öllum grunnskólunum.
- Tryggja þarf þjónustu talmeinafræðings í skólum sveitarfélagsins.
- Tryggja þarf að stuðningur við tvítyngd börn sé fullnægjandi í samráði við skólastjórnendur á hverjum stað.
- Efla skal og þróa kennsluúrræði fyrir nemendur með alvarleg heilsufarsleg eða námsleg frávik.
- Efla þarf list- og verkgreinakennslu í öllum skólunum og innleiða starfsnám í grunnskólunum eftir þörfum nemenda.
- Tryggja þarf nemendum og starfsfólki samkeppnishæft umhverfi m.t.t. notkunar á tækni í skólastarfi.
- Húsnæðismál skólanna þarf að skoða og gera úrbótaáætlun.