Það er lykilatriði að í sveitarfélaginu þrífist fjölbreytt atvinnulíf þar sem frumkvæði og nýsköpun skipa stórt hlutverk og sem flestir geti fundið kröftum sínum farveg.
Landbúnaður
- Efla þarf landbúnað á svæðinu, horfa til frekari fullvinnslu beint frá býli og styðja við lífræna ræktun.
- Hvetja þarf til þess að allar greinar landbúnaðar sitji við sama borð gagnvart bjargráðum vegna tímabundinna áfalla.
- Kanna þarf möguleika hitaveitu Egilstaða og Fella til að koma til móts við hugsanlega ylrækt og staðbundna framleiðslu með sjálfbærni í huga.
- Vinna þarf matvælastefnu fyrir sveitarfélagið.
Sjávarútvegur
- Sveitarfélagið þarf að beita sér gegn frekari samdrætti í hefðbundinni útgerð og fiskvinnslu og frekari samþjöppun á veiðiheimildum.
- Tala þarf fyrir sterkari stöðu strandveiða og smábátaútgerðar.
- Hvetja ætti til frekari fullvinnslu á fiskafurðum í heimabyggð og styðja nýsköpun og matvælaþróun í sjávarútvegi.
Fiskeldi
- Tryggja þarf eðlilegt eftirlit með starfsemi fiskeldis þannig að hún fari fram í sem bestri sátt við umhverfi og samfélag. Eftirlit ætti að færa á nærsvæði starfseminnar og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni í leiðinni.
- Gjöld sem innheimt eru og verða af starfsemi í fiskeldi ættu í auknum mæli að renna til sveitarfélaganna sjálfra til að mæta innviðauppbyggingu.
- Að horft verði til vinnu um skipulag haf- og strandsvæða þegar kemur að skipulagi almennt og nýtingu fjarða og horft verði til fleiri hagsmuna en fiskeldis.
Skógrækt
- Styðja þarf við skógrækt, framleiðslu skógarafurða og hvetja til fullvinnslu og nýsköpunar í greininni.
- Tala þarf fyrir frekari stuðningi við skógræktina og horfa til hennar í samhengi við stöðuna í loftslagsmálum.
Ferðaþjónusta
- Ferðaþjónusta er mikilvæg grunnstoð atvinnulífsins í sveitarfélaginu. Horfa þarf til mikilvægis samvinnu í ferðaþjónustu innan sveitarfélagsins. Nýtt sveitarfélag þarf að markaðsetja sem heild.
- Horfa þarf til vetrarferðamennsku og greina sérstöðu sveitarfélagsins með það fyrir augum að lengja ferðamannatímabilið.
Hálendisþjóðgarður
- VG sér hálendisþjóðgarð sem tækifæri til atvinnuþróunar og náttúruverndar. Stjórnunarstörf, þjónusta, rannsóknir, ferðamennska og landvarsla eru dæmi um afleidd störf við þjóðgarðinn.
Skapandi greinar
Innan skapandi greina eru fjölmörg tækifæri til atvinnuþróunar á svæðinu. Nefna má menningarstarf, rannsókna- og frumkvöðlastarf, upplýsingatækni og miðlun svo fátt eitt sé nefnt. Í fjárhagsáætlun skal gera ráð fyrir að styrkir séu veittir til skapandi greina og menningarstarfs í sveitarfélaginu. Dæmi:
- Styrkir skulu veittir til grasrótarstarfs og nýsköpunar innan lista- og menningartengdrar starfssemi.
- Rannsóknir á hagrænum áhrifum menningarstarfs og skapandi greinum skulu sérstaklega styrktar og niðurstöður kynntar fyrir bæjarstjórnarmönnum sem og íbúum sveitarfélagsins, árlega næstu tvö árin.
- Rannsóknir á fornminjum og/eða menningararfi af svæðinu skulu styrkar og niðurstöður kynntar fyrir sveitarstjórnarmönnum sem og íbúum sveitarfélagsins, árlega næstu tvö árin.
- Erlend og/eða innlend nýsköpunarverkefni sem tengjast menningartengdri ferðaþjónustu og/eða samfélagsþjónustu skulu kynnt íbúum og sveitarstjórnarfólki árlega næstu tvö árin að frumkvæði sveitarfélagsins.
- Efla enn frekar skapandi sumarstörf fyrir ungmenni í kjörnum sveitarfélagsins.
- Berjast fyrir auknum stuðningi við nýsköpun og menningarstarfsemi frá ríkinu til sveitarfélagsins og leggja áherslu á að störf ríkisstofnanna séu auglýst án staðsetningar.