Mikilvægt er að gæta menningarlegrar sérstöðu innan allra byggðarlaganna. Hver byggðarkjarni sem og dreifbýlið eiga sér merka sögu og merkar byggingar og menningarminjar sem vert er að hlúa sérstaklega að. Margvísleg sóknarfæri eru innan sveitarfélagsins í menningararfinum.
- Innan sveitarfélagsins er rekin öflug og fjölbreytt menningarstarfsemi. Vinna skal heildstæða áætlun um hlutverk, framgang og sókn menningarhúsanna í sveitarfélaginu, með það að markmiði að starfrækja öflug menningarhús á hverju svæði. Menningarhúsin eiga að vera með staðbundna sérhæfingu og þjónustu fyrir gesti og íbúa sveitarfélagsins og ákveðna samhæfingu í starfi.
- Stefna skal að því að viðhalda og efla alla helstu menningarviðburði svo sem Bræðsluna, Hammondhátíð, Sumar í Havarí, Ormsteiti, LungA, List í ljósi og Rúllandi snjóbolta.
- Standa skal vörð um þau söfn sem þegar eru til staðar og jafnhliða skoða samstarf innan sveitarfélagsins þar sem við getur átt í þeim efnum.
- Efla skal fræðslustarfsemi sem og almennt sýningarhald menningarhúsa. Styðja sérstaklega við starf ætlað börnum og ungmennum á skólaaldri og skal aðgengi barna að menningarhúsunum í öllum kjörnum tryggt.
- Horfa skal til þess að miðla listviðburðum og öðrum viðburðum innan sveitarfélagsins eftir því sem tök eru á með það fyrir augum að sem flestir íbúar fái notið.
- Starfssemi bókasafna skal tryggð á kjörtímabilinu. Bókasöfnin skulu taka skref í átt að aukinni stafrænni þjónustu.